LÍFSHÆTTULEGUR NIÐURSKURÐUR VARÐANDI LÍKNAR- OG HEILBRIGÐISÞJÓNUSTUNA, OG AÐRA LÍFSNAUÐSYNLEGA ÞJÓNUSTU:

Líknar- og heilbrigðisþjónustan, bæði hér á landi og annars staðar, er ein af dýrmætustu arfleifð og ávexti kristinnar kærleikstrúar aldanna. Bænin er hér grundvallaratriði, eða öllu heldur lykillinn að grundvellinum, sem er eilíf frelsandi og líknindi náð Drottins, í Kristi Jesú, og vanti þann grundvöll, er ekki von á góðu. Nákvæmlega á þennan hátt byggðu kaþólsku systurnar upp líknarstarfsemi sína á byrjun síðustu aldar; vissulega fylgdi þessu líknarstarfi kostnaður, sem var samt af skornum skammti, sem hins vegar var nýttur til hins ýtrasta. Náð Drottins og bænin var þeim að leiðarljósi, grundvallað á konungi kærleikans, Kristi Jesú. Sama er að segja um líknarverk mannvinanna systur Móður Theresu og kristniboðslæknisins Alberts Scwheitzers. Og í raun einnig áframhaldandi uppbygging líknarþjónustunnar hér á landi á fyrri hluta síðustu aldar, t.d. með stofnun sjúkrasamlags, sem nýtt var á sem bestan og skynsamlega hátt.

Líknarþjónustan, þ.e. umönnun sjúkra og björgun mannslífa, verður að byggast áfram á bjargi aldanna, annars er voðinn vís, eins og komið hefur á daginn, ekki bara hér á landi, heldur víða um hinn vestræna heim; hvað þá í þeim löndum, þar sem fátækt er hvað mest, eins og í Afríku, Asíu og víðar, og var ekki á bætandi. Þá hafa vestræn ríki, í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS.), lokað fjölda sjúkrahúsa (ekki bara „skorið niður“ þjónustuna), víða í Afríku og Asíu; jafnvel í Austur-Evrópu. Hér er ekkert um annað að ræða en glæp gegn mannkyni! Og nógu mikill er sá glæpur vestrænna ríkja, að „skera niður“ þjónustuna í eigin löndum; ef ekki er hugsað um eigin þegna, hvernig má þá búast við því, að hugað sé að „fjarlægum“ löndum; og er Ísland langt frá því að vera hér undantekning; þvert á móti hefur hér á landi átt sér stað, mikill siðlaus niðurskurður, einkum til líknar- og heilbrigðisþjónustunnar sem og þróunarhjálpar.

Þá hefur og fátækt m.a. hér á landi aukist, sem er ekkert annað en afleiðing andlegs hruns, sem löngu var hafið, áður en hið svonenfnda „bankahrun“ varð, haustið 2008. Og andlegur þáttur „bankahrunsins“ eða „kreppunnar“ er skammarlega vanmetinn, og þá ekki síst sú félagslega einangrun, sem bitnar harðast á þeim, sem enga sök eiga á ástandinu. Andlegum þætti svonefndrar kreppu er alfarið gleymt!! Við erum bæði siðblind og skeytingarlaus, ef við sjáum þetta ekki. Landsstjórnin er aðeins að framkvæma það, sem a.m.k. hugur hluta almennings, stendur til. Og þess meiri þjóðarskömm er hér um að ræða, að Ísland skuli enn teljast til þess, að vera meðal tekjuhæstu þjóða, í heild sinni. Ríkiskassinn er ekki tómur; þó er skorið á siðlausan niður varðandi þau störf og þjónustu, sem eru upp á líf og dauða komin. Og jafnfarmt er þess meiri þjóðarskömm, hversu hið svonefnda bil milli tekjuhárra einstaklinga og tekjulágra, er alltaf að aukast og aukast. Það er með öllu óverjandi, að líta á mennskar manneskjur sem dauða hluti eða tölur á pappírum, þ.m.t. stóran hóp eldri borgara og öryrkja sem og þann fjölda ungs fólks, sem hefur neyðst til þess að flytja af landi brott, og jafnvel misst heimili sitt, og getur ekki lengur brauðfætt sig og sína hér á landi. Andlegur þáttur slíkra áfalla er einnig skammarlega vanmetinn.

Kristniboðsskipunin á hér heldur betur við, fyrr var þörf, nú nauðsyn. Ef afkristnunin heldur áfram og ekki er hugað að okkar minnstu meðbræðrum og systrum í hinum vestræna heimi, hvað verður þá um þau fjarlægu raunabörn; þau munu þá ekki njóta nokkurrar líknarþjónustu, sem neinu nemur, auk þeirra fjölda milljóna, t.d. í Afríku, og þá ekki síst mæðra og barna, sem munu verða hungurmorða, ofan á hinar milljónirnar, sem þegar hafa fengið að deyja Drottni sínum, vegna sinnuleysis og skeytingarleysis hinna efnaðri þjóða. Hér kemur enn skýrar fram, hversu mikils er um vert, að rjúfa ekki samhengið milli kristniboðs og kristilegrar hjálparstarfsemi, nær sem fjær. Okkur kemur við, ef við viljum á annað borð teljast kristin, neyð meðbræðra vorra og systra, hvort sem þau standa okkur allra næst, eru í nágrenninu, eða hvort heldur þau búi í 10 km. eða 4000 km. fjarlægð frá okkur. Og við megum heldur ekki gleyma að líta okkur næst, einnig varðandi þá fátækt, sem leitt hefur af hinni andlegu fátækt mannfélagsins, og er örsök bæði heimskreppunnar og „bankahrunsins“, hér á landi, vegna þess að haft var alltof mikið að leiðarljósi, sá fjársjóður, sem möl og ryð fær grandað, sem bitnar síðan harðast á þeim, er síst skyldi, og enga sök eiga á ástandinu. Skeytingarleysi og siðblinda tíðaranda nútímans má ekki ná hér rótum, né annars staðar. Guðlaust líf leiðir ekki aðeins af sér líkamlegan dauða, heldur einnig andlegan; þ.e. ógnar eilífri sáluhjálp náungans, sem er vissulega það alvarlegasta í þessu. Ef til vill erum við komin aftur á byrjunarreyt. Er land vort frekar orðið að kristniboðsakri, frekar en að teljast kristið land? En þá er um að gera að byggja upp og að endurreisnin sé byggð á bjargi aldanna, Kristi Jesú, en ekki tíðaranda hvers tíma, og leggja þess meiri ásherslu á hina sönnu innviði þjónustunnar til handa hinum sjúku og þeirra, sem eru í nauðum á einn eða annan hátt; eða eins og forstöðumaður Samhjálpar sagði, að aldrei sem fyrr hafi verið eins mikil þörf á að varðveita og efla velferðarþjónustuna sem nú, einmitt í þeim aðstæðum, sem við blasa í dag. Hin kristnu sjónarmið lýsa eins og ljós í myrkri grimmrar og skeytingarlausrar heimshyggju, og sinnuleysi, sem byggist á botnlausum forarpytti guðlauss miskunnarleysisins. Endurreisn sjúkrasamlags kæmi hér að fullum notum sem og skattlagning á inngreiðslur í lífeyrissjóði (ekki afturvirkt), sem væri einnig mjög skynsamlegt, til að tryggja ekki síst óskerta líknar- og mannúðarþjónustu, til handa öllum, óháð stétt og stöðu og óháð efnahag, og nýta fé til líknar- og velferðarþjónustunnar á sem allra besta hátt, án nokkurs niðurskurðar til þjónustunnar sjálfrar.
Og við megum heldur aldrei gleyma að líta okkur næst. Mannvinurinn og kristniboðslæknirinn, Albert Schweitzer, kemst m.a. svo að orði:

„Mönnum hættir til þess að leita langt yfir skammt. Oft sjá þeir fjarlæg og sérstæð verkefni í hillingum og láta sér þá sjást yfir önnur, sem eru hendi næst og engu að síður veigamikil og þörf. ... .“ (Sigurbjörn Einarsson/Arnbjörn Kristinsson, 1955, Albert Schweitzer, ævisaga, bls. 272).

Varið er hærri fjárframlögum, bara svo eitt dæmi sé nefnt, fyrir utan öll „gæluverkefnin“, til hins nýja tónlistar- og ráðstefnuhúss, svonefndrar „Hörpu“ eða sem nemur 33 milljörðum króna, á sama tíma og skorið er niður til líknar- og heilbrigðisþjónustunnar, sem stefnir lífi veiks fólks í bráða hættu; forgangsröðin er hér stórhættuleg!!! Fleiri hundruð heilbrigðisstarfsfólks hefur verið sagt upp; álagið verður nær óbærilegt gagnvart því heilbrigðisstarfsfólki, sem eftir stendur; þjónustan skerðist, og biðlistar stóraukast. Hér er verið að spara eyrinn, en henda krónunni, fyrir utan það, sem aldrei, aldrei verður metið til fjár! Sama er að segja varðandi skólastörf, löggæslu, og önnur störf björgunar, og varðar almannaheill, o.s.frv.

Störf líknar, miskunnar, björgunar, uppeldis- og menntunnar, eru sérstaklega vanmetin á mjög ómaklega hátt. Um það bil 660 heilbrigðisstarfsmönnum hefur sagt upp störfum hjá Landspítalanum, auk fjölda manns úti á landsbyggðinni; þótt þvert á móti brýn þörf hefði verið á því, að fjölga þeim verulega, ekki síst í aðstæðum nútímans, bæði úti á landsbyggðinni og Landspítalanum. Athygli vekur, að um 90% þeirra starfsmanna, sem sagt er hér upp, eru konur, sem einkum sinna hreingerningu, sem engin starfsemi gæti verið án, og hjúkrun, umönnun og rannsóknum. Hin hefðbundnu kvennastörf eru hér sérstaklega vanmetin á mjög ómaklegan hátt.

Ef bágur efnashagur hefði ráðið ferðinni varðandi fyrrnefnd líknarstörf, og tíðarandinn ráðið ferðinni, - en veraldleg fátækt var þá meiri en nú, andstætt því er varðar hina andlegu fátækt, - hefði ekkert orðið af þeim; það hefði ekki svarað kostnaði, miðað við tíðarandann í dag. Grundvallarspurningin er því þessi: Ætlar mannfélagið að byggja líf sitt á sandi tíðarandns, sinnuleyisins, skeytingarleysisins, m.ö.o. siðblindu og siðleysi hins grimma tíðaranda, eða byggja líf sitt á bjargi aldanna, Drottni Jesú Kristi, með náð, líkn og miskunn Drottins að leiðarljósi, í varðveislu og uppbyggingu kristinnar kærleikstrúar aldanna, þar sem hvert mannslíf sem og eilíf sáluhjálp þess, er ómetanlegt, þar sem þeim fjársjóði er safnað, sem mölur og ryð fær aldrei grandað, er tekið fram yfir forgengilegan auð, sem mölur og ryð fær eytt, og stefna þar með lífi sínu, samborgara sinna og annarra, í bráða lífshættu og neyð, og stefna eigin eilífri sáluhjálp í voða sem og annarra, miðað við orð Drottins Jesú Krists. Þannig er dæmdur sakamaður, sem gerir iðrun, í betri málum, en ,,heiðarlegur nútímamaður“, sem byggir á sandi tíðarandans og sinnuleysins, sem telur iðrunar ekki þörf; samanber iðrun ræningjans við hlið Jesú á krossinum: Og Jesús sagði við hann: ,,Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“ (Lúk. 23. kap., vers 43). Og allir eru fyrirhugaðir, frá grunvöllun heims, til eilífs hjálpræðis og eilífs lífs í Kristi Jesú. Hinir réttlátu, eða öllu heldur réttlættu, muna fara til eilífs lífs, það er allir þeir, sem meðtaka, og hafna ekki eilífu hjálpræði Guðs, í Drottni vorum Jesú Kristi til eilífs hjálpræðis, og leifa Kristi Jesú að lifa í sér og öllu sínu lífi; lifa í iðrun og helgun. Og allir, allir, eru fyrirhugaðir til eilífs hjálpræðis og eilífs lífs, í Drottni vorum og Frelsara, Kristi Jesú, konungi konunganna, konungi kærleikans.

Með óskum um Guðs blessun

Ólafur Þórisson, cand. theol.

Höfundur er með embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands, og er með rétt til embættisgengis til prestsþjónustu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ólafur Þórisson

Höfundur

Ólafur Þórisson
Ólafur Þórisson
Höfundur er með embættispróf í guðfræði frá HÍ., og er með rétt til embættisgengis til prestsþjónustu
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 918

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband